Tuesday, September 28, 2010

Ekki gekk rófan

Það var alveg sama hvað við Einbjörn, Tvíbjörn, Þríbjörn og Fjórbjörn toguðum í rófuna, ekki losnaði kálfurinn. Að lokum slitnaði rófan, Litháar unnu okkur með því að skora tvö stig í lokaumferðinni og Hvít-Rússar gátu fagnað því þetta þýddi að þeir fóru beint í úrslitaleik gegn Slóvökum í stað þess að þurfa að leika aukaleik gegn okkur. Reyndar munaði minnstu að Slóvakar töpuðu fyrir Tyrkjum í lokaumferðinni og það hefði þýtt að við og Slóvakar hefðum leikið aukaleik um það hvort liðið myndi fylgja Hvít-Rússum.

Draumurinn er úti að sinni, peningaveskið er frekar fegið því að við unnum okkur ekki rétt til að leika í B-keppninni í Champery í Sviss í desember því það hefði kostað dágóða summu - eða mikla vinnu við að sníkja styrki.

Já, og talandi um styrki. Við viljum þakka öllum sem styrktu okkur og aðstoðuðu með peningaframlagi eða með öðrum hætti. Okkur langar til að nefna nokkra aðila sérstaklega.

Asham fyrirtækið í Kanada styrkti okkur myndarlega með skóm og fatnaði.

Líkamsræktarstöðin Bjarg á Akureyri gerði okkur auðveldara um vik að komast í gott form þó svo við hefðum sjálfir mátt vera duglegri að mæta í tíma þar. Við mælum hiklaust með Bjargi, þar er gott að vera.

Verkefnasjóður ÍSÍ styrkti okkur með myndarlegu fjárframlagi.

Önnur myndarleg fjárframlög komu frá Krulludeild SA, Akureyrarbæ, VISA/VALITOR, Norðurorku, Steypusögun Norðurlands, Ferro Zink og Roðasteini.

Calum MacNee og fyrirtækið hans, Rabbies (http://rabbies.com/) spöruðu okkur góðar summur í hótelkostnaði og krullulið Calums spilaði við okkur stuttan æfingaleik. Calum og kona hans, Linsey Alison, gáfu okkur einnig góð ráð og mættu tvisvar til að horfa á leiki okkar og styðja okkur til dáða.

Monday, September 27, 2010

Pistill frá Greenacres

Ritstörfin hafa aðeins setið á hakanum, meiri athygli á sjálfa keppnina. Krullufréttaritari hefur látið sér nægja að skrifa á heimasíðu Krulludieldar SA (www.curling.is eða www.sasport.is/krulla).


(Sjálfsmynd fréttaritara, samt var það aðallega skiltið sem ég vildi mynda, fór óvart fyrir myndavélina rétt áður en ég smellti af.)

Fyrst til upprifjunar: Unnum Lúxemborg í fyrsta leiknum nokkuð auðveldlega, 12-2. Annar leikurinn var erfiðari, lentum undir en náðum undirtökunum seint í leiknum gegn Slóvökum og unnum 6-5. Fljúgandi start og sjálfstraustið í góðu lagi. Ekki veit ég hvort aðrir áttu von á því að Ísland gæti eitthvað en að minnsta kosti vissu Slóvakar og Hvít-Rússar að við unnum þá í B-keppninni í Aberdeen. Kannski komum við sjálfum okkur mest á óvart - en samt hafði ég sagt fyrir keppnina: "Við gætum unnið alla leikina, við gætum tapað öllum."
Jens, við unnum Lúxemborg! Af hverju er Marco glaðlegri en þú?

Sævar með tveimur skemmtilegurm Lúxemborgurum. Þeim leiðist ekkert þótt þeir hafi tapað.

Afslöppun með Slóvökum eftir sigurleikinn gegn þeim, allir sáttir, við samt sáttari.

Þriðji leikurinn okkar var gegn liði Tyrkja síðdegis á laugardag. Tyrkir eru ný aðildarþjóð Evrópska krullusambandsins en hafa æft stíft undir stjórn þjálfara að undanförnu. Aðalástæðan fyrir því að Tyrkir hafa komið íþróttinni af stað er að í janúar 2011 halda þeir heimsleika stúdenta. Sem heimaþjóð þurftu þeir að tefla fram þátttakendum í öllum keppnisgreinum og hafa því fengið styrki og sett fjármagn í uppbyggingu íþróttarinnar í Tyrklandi, eru að klára að byggja krulluhöll og hafa með skipulögðu átaki fengið mikið af ungu fólki (háskólastúdentum) til að hefja iðkun íþróttarinnar. Kvennalið Tyrkja vann alla leiki sína og leikur til úrslita gegn Írlandi um Evrópumeistaratitil C-þjóða.
Karlalið Tyrkja sat yfir í fyrstu umferðinni en tapaði síðan fyrir Serbum. Liðið er skipað ungum og frískum mönnum sem aðallega skortir reynslu og sjálfstraust. Sem betur fer náðum við góðum kafla rétt fyrir miðbik leiksins gegn Tyrkjunum því þeir virtust batna með hverri umferðinni - og raunar hefur það haldið áfram hjá þeim, þjálfari þeirra, Brian Gray, segir þá fara batnandi með hverjum leiknum. Okkur tókst sem sagt að ná góðri forystu gegn Tyrkjunum en þeir spýttu í lófana og voru ekki langt frá því að jafna leikinn, úrslitin þó 8-7 okkur í hag. Tyrkirnir töpuðu naumlega fyrir Hvít-Rússum og unnu Lúxemborg sannfærandi. Von okkar er að Tyrkirnir setji strik í reikning Slóvaka í lokaumferðinni og geri okkur þar með auðveldara fyrir að komast áfram.

Fjórði leikur okkar var gegn Serbum. Þar lentum við 2-0 undir en náðum síðan undirtökunum og unnum nokkuð sannfærandi, 8-5. Serbar eiga enn veika von um að komast áfram ef þeir vinna báða leikina í dag, en þá þurfa þeir að treysta á að Hvít-Rússar, Slóvakar eða við misstígum okkur. Það er semsagt möguleiki á að fjögur lið endi jöfn með fjóra vinninga og þá þarf aukaleiki til að skera úr um hvaða lið fara í úrslitaleikinn og áfram í B-keppnina.

Fimmti leikur okkar byrjaði ekki sem best og endaði ekki sem best. Allt þar á milli var mjög gott. En það eru víst úrslitin sem telja. Fyrst varð okkur á að taka burt stein sem átti að mæla og fengum því skráð 185,4 sentímetra á stein sem var líklega innan við 30 sentímetra frá miðjunni. Það gæti skipt máli þegar upp er staðið ef mörg lið enda jöfn. Til útskýringar fyrir þá sem ekki þekkja til íþróttarinnar þá er það þannig að fyrir hvern leik tekur hvort lið um sig eitt skot og reynir að láta steininn enda sem næst miðju hringsins á hinum enda brautarinnar. Fjarlægðin er mæld og meðaltal úr öllum þessum skotum (að frádregnu því versta) ræður röð liða ef þau eru jöfn að vinningum og jöfn í innbyrðis viðureignum. Reyndar er það þannig einnig að ef lið eru jöfn í sætum sem gefa rétt til að leika úrslitaleikinn þá getur þetta skor ekki útilokað lið, heldur aðeins raðað liðunum og ráðið því hvaða lið þurfa aukaleik um réttinn til að fara í úrslitaleikinn. Slóvakar hafa betra skor en við og reyndar Serbar einnig (skiptir bara máli ef Serbar verða jafnir okkur). Ef svo færi að við, Slóvakar og Hvít-Rússar enduðum jafnir þá er staðan þannig núna að Slóvakar eru líklegastir til að raðast númer eitt og þá þurfum við aukaleik gegn Hvít-Rússum - og þeir eru einmitt eina þjóðin sem hefur sigrað okkur til þessa.

Leikurinn gegn Hvít-Rússum byrjaði semsagt ekki vel. Við hefðum átt að hafa síðasta stein í fyrstu umferðinni miðað við skotið okkar, en það snérist við af því að steinninn var færður. Ekki veit ég hvort það setti okkur úr jafnvægi en að minnsta kosti hittum við ekki vel í fyrstu umferðinni og fengum á okkur fimm stig. Þá kom reyndar í ljós hve góður andi er í liðinu, við létum þetta ekki á okkur fá og skoruðum þrjú stig strax í annarri umferð. Þó svo Hvít-Rússar næðu síðan að svara misstum við aldrei trúna og komumst yfir, 9-8, þegar aðeins ein umferð var eftir. Þá gekk lukkan aftur í lið með Hvít-Rússum og áttum við í erfiðleikum í þeirri umferð. Fyrir okkar síðasta stein áttu Hvít-Rússar tvo steina innst sem gáfu stig. Við áttum völina um að reyna að skjóta annan og jafnvel báða út eða að leggja upp að innri steininum þeirra. Sá sem átti skotið (Jens) vildi frekar skjóta út en sá sem þetta ritar (Halli) vildi og valdi hitt skotið. Eftir á að hyggja var það röng ákvörðun. Með því að skjóta út að minnsta kosti annan stein Hvít-Rússa hefðum við að minnsta kosti sett pressu á þá þó svo þeir hefðu eftir sem áður átt möguleika á að skora tvö stig með sínum síðasta steini. Skotið sem við völdum gekk ekki, líklega var ekki gefin rétt lína fyrir það skot og steinninn náði aldrei inn á hring. Steinarnir tveir frá Hvít-Rússum stóðu því óhaggaðir og þeir þurftu ekki að senda sinn síðasta stein, höfðu þegar trygg tvö stig og sigur í leiknum, 9-10. Grátlegur endir á ótrúlegum og spennandi leik.

Þegar þetta er ritað eru Jens, Svenni og Sævar farnir niður í miðbæ Glasgow til að versla (H&M, Primark og fleiri góðar búðir), en fréttaritari ákvað frekar að bregða sér í krulluhöllina þar sem mótið fer fram og fylgjast með leikjum næstsíðustu umferðarinnar.

Leikirnir sem núna eru í gangi eru: Litháen - Tyrkland, Serbía - Hvíta-Rússland, Slóvakía-Lúxemborg. Okkar draumaúrslit í þessum leikjum væru að Serbar ynnu Hvít-Rússa og Lúxemborg ynnu Slóvaka. Því miður held ég að líkurnar séu á hinn veginn í báðum leikjunum.

Slóvakar sópa af krafti í leiknum gegn Lúxemborg.

Serbar gætu reynst Íslendingum hjálplegir ef lukkan er með - eða skeinuhættir ef öll úrslit fara á versta veg.

Úr leik Litháa og Tyrkja í næstsíðustu umferðinni.

Eitt er þó víst: Við þurfum og ætlum að vinna Litháen í lokaumferðinni í kvöld. Sá leikur hefst kl. 18 að skoskum tíma. Annað getum við ekki gert í bili - sjáum svo hvert það skilar okkur.
Staðan fyrir næstsíðustu umferðina.

Saturday, September 25, 2010

Ísland - Slóvakía 6-5

Æsispennandi, frábær sigur gegn góðu liði. Byrjuðum ekki nógu vel, vorum ekki að ná þeim skotum sem við vorum að reyna. En svo batnaði leikur okkar eftir því sem leið á og í síðari hluta leiksins kom kannski í ljós að við nutum þess að vera í góðu formi.

Fyrirfram töldum við þetta verða einn af tveimur erfiðustu andstæðingunum, þannig að nú höfum við stigið yfir einn erfiðan þröskuld, fleiri eftir.

Nú verum við efstir ásamt Hvít-Rússum, bæði liðin búin að vinna báða sína leiki.

Friday, September 24, 2010

Ísland 12 - Lúxemborg 2

Jáááááááááá!!!!!!!!!

Íslenski fáninn á loft

Þó svo okkar keppni sé ekki hafin fór íslenski fáninn á loft í gær, var dreginn að hún eins og við hefðum unnið gullverðlaun. Vonandi er þetta fyrirboði um það sem koma skal, en í þetta skipti var bara um æfingu að ræða fyrir verðlaunaafhendingu á hinu mótinu á morgun (Evrópumót blandaðra liða) og vildu mótshaldarar ekki nota fána þeirra þjóða sem þar keppa til að æfa fyrir þá athöfn þannig að fyrir valinu urðu sá íslenski og fánar tveggja annarra þjóða sem ekki eiga fulltrúa í "Mixed" mótinu.

Thursday, September 23, 2010

Opnunarhóf


Fámennt en góðmennt opnunarhóf var haldið fyrir C-flokkinn í kvöld. Því miður mættu fæst af liðunum, aðeins Ísland og Tyrkland í karlaflokki og Írland og Tyrkland í kvennaflokki. Íslenska liðið fékk þann heiður að sitja til borðs með írska kvennaliðinu.

Wednesday, September 22, 2010

Krullað og verslað


Þegar hægt er að fara í verslunarmiðstöð, fara í búðir og æfa svo krullu á sama stað þá má eiginlega segja að maður sé kominn í æfingabúðir.

Helmingur krullulandsliðsins (Halli og Sævar) er kominn til Glasgow, búinn að fara og skoða keppnishöllina í Greenacres og fylgjast með leikjum á Evrópumóti blandaðra liða (2 konur, 2 karlar), búinn að fara í verslunarmiðstöðina Braehead þar sem meðal annars er krullusalur með átta brautum og taka þar góða æfingu á góðu svelli. Eftir æfinguna var auðvitað kíkt í búðir.

"Seinni" helmingur liðsins (Jens og Sveinn) kemur til Glasgow um miðjan dag á morgun. Um leið og þeir mæta á hótelið förum við aftur til Braehead og tökum tveggja tíma æfingu þar, fyrst einir og spilum svo stuttan leik við skoskan félaga okkar sem kom á Ice Cup í vor og hefur verið okkur innan handar við ýmislegt hérna í Glasgow.

Að lokinni æfingunni á morgun förum við svo til Greenacres, krulluhöllina þar sem Evrópumótið fer fram, en þar verður opnunarhóf mótsins á fimmtudagskvöld. Til gamans má geta þess að Greenacres krulluhöllin er úti í sveit, í um tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá flugvellinum, og er í byggingu sem áður var fjós og eitthvað fleira, samtals 6 krullubrautir.

Ýmislegt um krullu og meðal annars myndir frá Evrópumótunum má finna á skoska krullblogginu "Skip Cottage Curling".

Tuesday, August 24, 2010

Endanleg leikjadagskrá

Mótshaldarar hafa sent út staðfesta leikjadagskrá. Fyrsti leikur okkar verður gegn Lúxemborg kl. 21 föstudaginn 24. september og sá síðasti gegn Litháen kl. 18 mánudaginn 27. september. Leikjadagskrá íslenska liðsins er í heild í valmyndinni hér til hliðar en leikjadagskrá fyrir alla C-keppnina má finna á vef mótshaldara hér.

Thursday, August 19, 2010

Myndataka

Við komum saman til myndatöku í Heiðarbóli, heima hjá Sveini. Ásgeir Freyr Þórsson mundaði vélarnar (þurftum að nota tvær af því að rafhlaðan tæmdist í þeirri fyrri) en hann á ekki langt að sækja það að geta ýtt á takka á myndavél, sonur Betu og dóttursonur Ása ljós.

Föstudagurinn 20. ágúst er síðasti skiladagur á öllum pappírum er varða þátttöku liðsins (sjá fyrri frétt) og svo liðsmynd til að birta í leikskránni. Aðalkvölin var auðvitað að velja þá bestu af öllum þessum góðu myndum... en á endanum valdi "landsliðseinvaldurinn" þessa:


Liðsmyndirnar má sjá á sérsíðu (smellið á "liðsmyndir" hér til hægri).

Saturday, August 7, 2010

Hvar stöndum við í samanburði við keppinautana?

Heimslistinn í krullu segir ýmislegt um árangur þjóða á undanförnum árum - en þegar í keppni er komið segir hann kannski ekki mikið. Hér er til gamans yfirlit um stöðu keppinauta okkar í C-keppninni á heimslistanum og árangur á EM 2009:

30. Slóvakía (46 stig) - 28. sæti á EM 2009
35. Litháen (25 stig) - 27. sæti á EM 2009
36. Hvíta-Rússland (22 stig) - 30. sæti á EM 2009
37. Serbía (11 stig) - 29. sæti á EM 2009
38. Ísland (10 stig) - 26. sæti á EM 2009
42.-45 Luxembourg og Tyrkland (0 stig) - Luxembourg hefur ekki tekið þátt í Evrópumóti nokkur undanfarin ár og Tyrkland er nýr aðili að ECF og verður keppnin nú sú fyrsta sem Tyrkir taka þátt í.

Friday, August 6, 2010

Pappírsvinna, búningamátun, liðsuppstilling og sparnaður á hótelkostnaði...

Undirbúningur fyrir þátttökuna í C-keppni Evrópumótsins er að komast á skrið. Flest formsatriði eru komin á hreint og aðeins eftir að skila inn endanlegum undirrituðum pappírum.

Til gamans og fróðleiks er hér listi yfir þá pappíra sem liðið þarf að senda til mótshaldara og Evrópska krullusambandsins:
a) RELEASE AGREEMENT - tilkynning um liðsuppstillingu og afsal allra réttinda til mótshaldara er varða myndatökur og fréttflutning frá mótinu.
b) BIOGRAPHICAL QUESTIONNAIRE - Hver leikmaður skilar inn blaði með persónulegum upplýsingum, svo sem um aldur, áhugamál, starf, fjölskylduhagi og fyrri árangur á alþjóðlegum krullumótum.
c) HEALTH INFORMATION FORM - Hver leikmaður skilar inn blaði með upplýsingum um heilsu, þar sem meðal annars þarf að svara því hvort leikmaðurinn er í meðferð hjá lækni, hefur hjartasjúkdóm, astma, geðsjúkdóma, ofnæmi og fleira.
d) DOPING, ACKNOWLEDGEMENT AND AGREEMENT FORM - Hver leikmaður þarf að undirrita yfirlýsingu um að hafa móttekið og farið yfir reglur Alþjóða krullusambandsins um notkun lyfja, samþykkja lögsögu sambandsins og fleira í þeim dúr. Tilkynna þarf sérstaklega ef leikmaður er á lyfjum sem eru á bannlista.

Styrkur frá Asham
Eins og áður hefur komið fram er kanadíska krullufyrirtækið Asham einn af aðalstyrktaraðilum landsliðsins þetta árið. Liðið fékk í gær fullan kassa frá Asham sem innihélt boli, jakka, hanska, buxur og skó. Meirihluti liðsins kom svo saman í kvöld til að skoða dótið og máta. Spurning hvort einhverjir taka ekki "jólavinkilinn" á þetta og sofa í nýju skónum í nótt.

Liðsuppstillingin
Búið er að ákveða liðsuppstillinguna sem tilkynnt verður til mótshaldara. Liðsmenn voru á einu máli um uppröðunina en uppstillingin verður þannig að Haraldur verður skipper en spilar þó sem þriðji maður en Jens spilar sem fjórði maður:
1. Sveinn H. Steingrímsson
2. Sævar Örn Sveinbjörnsson
3. Haraldur Ingólfsson (skip)
4. Jens Kristinn Gíslason
Til upplýsingar fyrir þá lesendur sem ekki þekkja til krulluíþróttarinnar þá þýðir þetta að Sveinn sendir fyrstu tvo steinana fyrir liðið, Sævar næstu tvo, þá Haraldur tvo og svo Jens tvo síðustu. Haraldur mun hins vegar halda um stjórnvölinn þó svo hann sendi ekki síðustu steinana. Algengara er að sami leikmaður sendi lokasteinana og stýri liðinu. Niðurstaða liðsmanna var hins vegar að þessi uppstilling væri betri út frá hæfileikum hvers og eins.

Vinatengslin spara hótelkostnað
Eitt af því skemmtilega við krulluíþróttina er að með þátttöku í mótum og með því að halda mót og fá hingað erlenda keppendur verða til vináttusambönd og oftar en ekki verða slík sambönd til þess að auðveldara er að útvega ýmislegt þegar farið er á mót. Einn af þátttakendunum á Ice Cup síðastliðið vor, Calum MacNee, rekur ferðaþjónustufyrirtæki í Skotlandi. Hann átti ekki í vandræðum með að útvega liðinu gistingu í Glasglow, rétt hjá hinu opinbera hóteli mótshaldara, en á mun lægra verði. Liðið nær þannig að spara allnokkuð í hótelkostnaði en er svo nálægt opinberu hóteli mótshaldara að ekkert mál verður að nota rútuna sem flytja mun keppendur frá hóteli að keppnisstað í Greenacres - sem er úti í sveit nokkuð frá Glasgow. Liðið mun gista á Holiday Inn Express hótelinu við flugvöllinn í Glasgow.

Sunday, July 18, 2010

Leikjadagskrá Evrópumótsins tilbúin

Nú er kominn í loftið mótsvefur fyrir C-keppni Evrópumótsins og búið að draga um röð leikjanna hjá liðunum. Formleg þátttaka okkar hefst kl. 14 föstudaginn 24. september með æfingu á keppnissvellinu en fyrsti leikur okkar verður kl. 21.00 sama dag gegn Luxembourg. Síðan eru leikir gegn Slóvakíu og Tyrklandi á laugardeginum, Serbíu og Hvíta-Rússlandi á sunnudeginum og svo lokaleikurinn gegn Litháen kl. 18.00 á mánudeginum.

Að sjálfsögðu stefnir liðið svo að því að vera í toppbaráttunni og komast í úrslitaleik C-keppninnar þriðjudaginn 28. september.

Monday, June 28, 2010

Asham-krullufyrirtækið styrkir liðið

Eftir nokkrar tölvupóstsendingar hefur fulltrúi kanadíska fyrirtækisins Asham nú staðfest að fyrirtækið mun styrkja íslenska krullulandsliðið með búningum og búnaði. Reyndar hefur ekki verið skrifað undir formlegan samning en þessi styrkveiting hefur verið staðfest og aðeins eftir að ganga frá nákvæmlega hvaða fatnaður og búnaður það verður sem liðið fær frá fyrirtækinu. Asham er einn helsti framleiðandi og seljandi þess búnaðar sem þarf til krulluiðkunar, þ.e. fatnaðar, skófatnaðar, kústa og ýmiss konar aukabúnaðar.

Þess má geta að Asham er meðal annars einn styrktaraðila silfurverðlaunaliðs Kanada í kvennaflokki á síðustu Ólympíuleikum og dönsku landsliðanna á Ólympíuleikunum.

Vefur Asham fyrirtækisins: http://www.asham.com/

Monday, June 21, 2010

C-keppnin: Sjö þjóðir skráðar til leiks

Í morgun barst staðfesting frá ECF á skráningu liða í Evrópumótið í krullu. Sjö þjóðir senda lið til keppni í C-flokki, Hvíta-Rússland, Ísland, Litháen, Luxembourg, Serbía, Slóvakía og Tyrkland. Liðin sjö leika innbyrðis, allir við alla. Hugsanlega þarf svo aukaleiki til að skera úr um hvaða lið ná tveimur efstu sætunum og þar með keppnisrétti í B-flokki. Tvö efstu liðin leika jafnframt úrslitaleik um Evrópumeistaratitil í C-flokki. Áætlað er að keppni í C-flokki fari fram 24.-28. september.

Frumraun Tyrkja
Fimm af þessum þjóðum tóku þátt í B-keppninni í Aberdeen í fyrra en féllu niður í C-flokk (Hvíta-Rússland, Ísland, Litháen, Serbía, Slóvakía). Tyrkland er nýr aðili að ECF og verður þetta því frumraun þeirra á Evrópumótinu. Luxembourg sendir nú aftur lið til leiks á Evrópumóti eftir nokkurt hlé.

Grikkir beint í B-flokk

Grikkir hefðu átt að vera á meðal keppenda í C-flokki en þeir fara beint upp í B-keppnina þar sem Pólverjar, sem áttu sæti í B-keppninni, skráðu ekki lið til leiks af einhverjum ástæðum. Grikkir unnu einum leik meira en Ísland í B-keppninni í fyrra, enduðu þannig efstir af þeim þjóðum sem féllu í C-flokk og taka því sæti Póllands í B-flokki.

Íslenska liðið sigraði Slóvaka í B-flokki Evrópumótsins í fyrra en Ísland hefur ekki mætt öðrum af þessum þjóðum á EM.

Sunday, June 6, 2010

Forföll á meðal Mammúta en maður kemur í manns stað


Ísland hefur skráð lið til leiks í C-keppni Evrópumótsins sem fram fer í Skotlandi í september.

Þrátt fyrir forföll í röðum Mammúta sökum væntanlegra barneigna sem sagt hefur verið frá á vef krulludeildar (sjá hér) hefur lið frá Íslandi nú verið formlega skráð til leiks í C-keppni Evrópumótsins í krullu sem fram fer í Greenacres í Skotlandi 24.-28. september. Þeir einu sem eftir voru í liði Mammúta af upphaflegum stofnendum liðsins frá 2004, Jón Ingi Sigurðsson og Ólafur Freyr Númason, munu sitja heima í þetta skipti vegna væntanlegra barneigna en félagar þeirra þrír sem hafa spilað með liðinu undanfarna tvo vetur og tóku þátt í EM 2009, þeir Haraldur Ingólfsson, Jens Kristinn Gíslason og Sveinn H. Steingrímsson, ætla að láta slag standa og taka þátt í Evrópumótinu. Riddarinn Sævar Örn Sveinbjörnsson kemur gengur til liðs við þremenningana og er ætlunin að halda utan til keppni með aðeins fjóra leikmenn í sparnaðarskyni.

Velgengni gæti orðið dýr
Staðan sem þessir krullumenn standa frammi fyrir er hins vegar nokkuð skondin því ef þeim gengur vel í C-keppninni í september og liðið nær fyrsta eða öðru sætinu ávinna þeir sér rétt til þátttöku í B-keppninni en sú keppni fer fram aðeins tíu vikum síðar, þ.e. í Champery í Sviss 3.-11. desember. Þá verður Jens ekki lengur tiltækur þar sem hann og kona hans eiga von á barni í nóvember. Fari svo að liðið komist upp úr C-flokki og fari í B-keppnina kemur Kristján Bjarnason inn í liðið í stað Jens.

Krullulandslið Íslands 2010 verður því þannig skipað: Haraldur Ingólfsson, Jens Kristinn Gíslason, Kristján Bjarnason, Sveinn H. Steingrímsson og Sævar Örn Sveinbjörnsson. Stytt kynning á liðsmönnum hefur verið sett hér inn á bloggið og er hægt að smella á nafn hvers og eins hér til hægri til að fá nánari upplýsingar.

Liðið vinnur nú að fjármögnun ferðarinnar og leitar fyrirtækja sem eru tilbúin að styðja það með einhverjum hætti. Allar ábendingar og aðstoð í þeim efnum þiggja liðsmenn með þökkum.

Beðið frétta af andstæðingum
Nú bíða menn spenntir eftir fréttum af því hve mörg lið skráðu sig til leiks og hvaða lið það eru. Þau lið sem féllu úr B-flokki í fyrra ásamt Íslandi voru Grikkland, Litháen, Serbía, Slóvakía og Hvíta-Rússland. Auk þeirra má nefna að Tyrkland og Rúmenía eru nýir aðilar að ECF og svo eru nokkrar þjóðir sem gætu hugsanlega tekið þátt en óvíst hvort þar eru lið til staðar, má þar nefna Luxembourg, Liechtenstein og Andorra. Hugsanlegt er þó að hertar reglur um þjóðerni og búsetu landsliðsmanna geti gert Hvít-Rússum og Grikkjum grikk. Til dæmis gæti Íslandsvinurinn Anton Batugin, sem hefur leikið fyrir Hvíta-Rússland, nú verið orðinn ólöglegur með liðinu þar sem hann er Rússi og býr í Moskvu.

Friday, May 28, 2010

Ísland á EM 2010

C-keppni Evrópumótsins í krullu fer fram í Greenacres í Skotlandi 24.-28. september. Í dag skráði Gísli Kristinsson, formaður Krullunefndar ÍSÍ, lið Íslands formlega til leiks.

Hér verður á næstu mánuðum sagt frá liðinu, undirbúningnum, styrktaraðilum, ferðalaginu og sjálfri þátttöku liðsins í keppninni.

Á myndinni er "hluti" af krullulandsliðinu 2010.