Tuesday, August 24, 2010

Endanleg leikjadagskrá

Mótshaldarar hafa sent út staðfesta leikjadagskrá. Fyrsti leikur okkar verður gegn Lúxemborg kl. 21 föstudaginn 24. september og sá síðasti gegn Litháen kl. 18 mánudaginn 27. september. Leikjadagskrá íslenska liðsins er í heild í valmyndinni hér til hliðar en leikjadagskrá fyrir alla C-keppnina má finna á vef mótshaldara hér.

Thursday, August 19, 2010

Myndataka

Við komum saman til myndatöku í Heiðarbóli, heima hjá Sveini. Ásgeir Freyr Þórsson mundaði vélarnar (þurftum að nota tvær af því að rafhlaðan tæmdist í þeirri fyrri) en hann á ekki langt að sækja það að geta ýtt á takka á myndavél, sonur Betu og dóttursonur Ása ljós.

Föstudagurinn 20. ágúst er síðasti skiladagur á öllum pappírum er varða þátttöku liðsins (sjá fyrri frétt) og svo liðsmynd til að birta í leikskránni. Aðalkvölin var auðvitað að velja þá bestu af öllum þessum góðu myndum... en á endanum valdi "landsliðseinvaldurinn" þessa:


Liðsmyndirnar má sjá á sérsíðu (smellið á "liðsmyndir" hér til hægri).

Saturday, August 7, 2010

Hvar stöndum við í samanburði við keppinautana?

Heimslistinn í krullu segir ýmislegt um árangur þjóða á undanförnum árum - en þegar í keppni er komið segir hann kannski ekki mikið. Hér er til gamans yfirlit um stöðu keppinauta okkar í C-keppninni á heimslistanum og árangur á EM 2009:

30. Slóvakía (46 stig) - 28. sæti á EM 2009
35. Litháen (25 stig) - 27. sæti á EM 2009
36. Hvíta-Rússland (22 stig) - 30. sæti á EM 2009
37. Serbía (11 stig) - 29. sæti á EM 2009
38. Ísland (10 stig) - 26. sæti á EM 2009
42.-45 Luxembourg og Tyrkland (0 stig) - Luxembourg hefur ekki tekið þátt í Evrópumóti nokkur undanfarin ár og Tyrkland er nýr aðili að ECF og verður keppnin nú sú fyrsta sem Tyrkir taka þátt í.

Friday, August 6, 2010

Pappírsvinna, búningamátun, liðsuppstilling og sparnaður á hótelkostnaði...

Undirbúningur fyrir þátttökuna í C-keppni Evrópumótsins er að komast á skrið. Flest formsatriði eru komin á hreint og aðeins eftir að skila inn endanlegum undirrituðum pappírum.

Til gamans og fróðleiks er hér listi yfir þá pappíra sem liðið þarf að senda til mótshaldara og Evrópska krullusambandsins:
a) RELEASE AGREEMENT - tilkynning um liðsuppstillingu og afsal allra réttinda til mótshaldara er varða myndatökur og fréttflutning frá mótinu.
b) BIOGRAPHICAL QUESTIONNAIRE - Hver leikmaður skilar inn blaði með persónulegum upplýsingum, svo sem um aldur, áhugamál, starf, fjölskylduhagi og fyrri árangur á alþjóðlegum krullumótum.
c) HEALTH INFORMATION FORM - Hver leikmaður skilar inn blaði með upplýsingum um heilsu, þar sem meðal annars þarf að svara því hvort leikmaðurinn er í meðferð hjá lækni, hefur hjartasjúkdóm, astma, geðsjúkdóma, ofnæmi og fleira.
d) DOPING, ACKNOWLEDGEMENT AND AGREEMENT FORM - Hver leikmaður þarf að undirrita yfirlýsingu um að hafa móttekið og farið yfir reglur Alþjóða krullusambandsins um notkun lyfja, samþykkja lögsögu sambandsins og fleira í þeim dúr. Tilkynna þarf sérstaklega ef leikmaður er á lyfjum sem eru á bannlista.

Styrkur frá Asham
Eins og áður hefur komið fram er kanadíska krullufyrirtækið Asham einn af aðalstyrktaraðilum landsliðsins þetta árið. Liðið fékk í gær fullan kassa frá Asham sem innihélt boli, jakka, hanska, buxur og skó. Meirihluti liðsins kom svo saman í kvöld til að skoða dótið og máta. Spurning hvort einhverjir taka ekki "jólavinkilinn" á þetta og sofa í nýju skónum í nótt.

Liðsuppstillingin
Búið er að ákveða liðsuppstillinguna sem tilkynnt verður til mótshaldara. Liðsmenn voru á einu máli um uppröðunina en uppstillingin verður þannig að Haraldur verður skipper en spilar þó sem þriðji maður en Jens spilar sem fjórði maður:
1. Sveinn H. Steingrímsson
2. Sævar Örn Sveinbjörnsson
3. Haraldur Ingólfsson (skip)
4. Jens Kristinn Gíslason
Til upplýsingar fyrir þá lesendur sem ekki þekkja til krulluíþróttarinnar þá þýðir þetta að Sveinn sendir fyrstu tvo steinana fyrir liðið, Sævar næstu tvo, þá Haraldur tvo og svo Jens tvo síðustu. Haraldur mun hins vegar halda um stjórnvölinn þó svo hann sendi ekki síðustu steinana. Algengara er að sami leikmaður sendi lokasteinana og stýri liðinu. Niðurstaða liðsmanna var hins vegar að þessi uppstilling væri betri út frá hæfileikum hvers og eins.

Vinatengslin spara hótelkostnað
Eitt af því skemmtilega við krulluíþróttina er að með þátttöku í mótum og með því að halda mót og fá hingað erlenda keppendur verða til vináttusambönd og oftar en ekki verða slík sambönd til þess að auðveldara er að útvega ýmislegt þegar farið er á mót. Einn af þátttakendunum á Ice Cup síðastliðið vor, Calum MacNee, rekur ferðaþjónustufyrirtæki í Skotlandi. Hann átti ekki í vandræðum með að útvega liðinu gistingu í Glasglow, rétt hjá hinu opinbera hóteli mótshaldara, en á mun lægra verði. Liðið nær þannig að spara allnokkuð í hótelkostnaði en er svo nálægt opinberu hóteli mótshaldara að ekkert mál verður að nota rútuna sem flytja mun keppendur frá hóteli að keppnisstað í Greenacres - sem er úti í sveit nokkuð frá Glasgow. Liðið mun gista á Holiday Inn Express hótelinu við flugvöllinn í Glasgow.