Tuesday, September 28, 2010

Ekki gekk rófan

Það var alveg sama hvað við Einbjörn, Tvíbjörn, Þríbjörn og Fjórbjörn toguðum í rófuna, ekki losnaði kálfurinn. Að lokum slitnaði rófan, Litháar unnu okkur með því að skora tvö stig í lokaumferðinni og Hvít-Rússar gátu fagnað því þetta þýddi að þeir fóru beint í úrslitaleik gegn Slóvökum í stað þess að þurfa að leika aukaleik gegn okkur. Reyndar munaði minnstu að Slóvakar töpuðu fyrir Tyrkjum í lokaumferðinni og það hefði þýtt að við og Slóvakar hefðum leikið aukaleik um það hvort liðið myndi fylgja Hvít-Rússum.

Draumurinn er úti að sinni, peningaveskið er frekar fegið því að við unnum okkur ekki rétt til að leika í B-keppninni í Champery í Sviss í desember því það hefði kostað dágóða summu - eða mikla vinnu við að sníkja styrki.

Já, og talandi um styrki. Við viljum þakka öllum sem styrktu okkur og aðstoðuðu með peningaframlagi eða með öðrum hætti. Okkur langar til að nefna nokkra aðila sérstaklega.

Asham fyrirtækið í Kanada styrkti okkur myndarlega með skóm og fatnaði.

Líkamsræktarstöðin Bjarg á Akureyri gerði okkur auðveldara um vik að komast í gott form þó svo við hefðum sjálfir mátt vera duglegri að mæta í tíma þar. Við mælum hiklaust með Bjargi, þar er gott að vera.

Verkefnasjóður ÍSÍ styrkti okkur með myndarlegu fjárframlagi.

Önnur myndarleg fjárframlög komu frá Krulludeild SA, Akureyrarbæ, VISA/VALITOR, Norðurorku, Steypusögun Norðurlands, Ferro Zink og Roðasteini.

Calum MacNee og fyrirtækið hans, Rabbies (http://rabbies.com/) spöruðu okkur góðar summur í hótelkostnaði og krullulið Calums spilaði við okkur stuttan æfingaleik. Calum og kona hans, Linsey Alison, gáfu okkur einnig góð ráð og mættu tvisvar til að horfa á leiki okkar og styðja okkur til dáða.

Monday, September 27, 2010

Pistill frá Greenacres

Ritstörfin hafa aðeins setið á hakanum, meiri athygli á sjálfa keppnina. Krullufréttaritari hefur látið sér nægja að skrifa á heimasíðu Krulludieldar SA (www.curling.is eða www.sasport.is/krulla).


(Sjálfsmynd fréttaritara, samt var það aðallega skiltið sem ég vildi mynda, fór óvart fyrir myndavélina rétt áður en ég smellti af.)

Fyrst til upprifjunar: Unnum Lúxemborg í fyrsta leiknum nokkuð auðveldlega, 12-2. Annar leikurinn var erfiðari, lentum undir en náðum undirtökunum seint í leiknum gegn Slóvökum og unnum 6-5. Fljúgandi start og sjálfstraustið í góðu lagi. Ekki veit ég hvort aðrir áttu von á því að Ísland gæti eitthvað en að minnsta kosti vissu Slóvakar og Hvít-Rússar að við unnum þá í B-keppninni í Aberdeen. Kannski komum við sjálfum okkur mest á óvart - en samt hafði ég sagt fyrir keppnina: "Við gætum unnið alla leikina, við gætum tapað öllum."
Jens, við unnum Lúxemborg! Af hverju er Marco glaðlegri en þú?

Sævar með tveimur skemmtilegurm Lúxemborgurum. Þeim leiðist ekkert þótt þeir hafi tapað.

Afslöppun með Slóvökum eftir sigurleikinn gegn þeim, allir sáttir, við samt sáttari.

Þriðji leikurinn okkar var gegn liði Tyrkja síðdegis á laugardag. Tyrkir eru ný aðildarþjóð Evrópska krullusambandsins en hafa æft stíft undir stjórn þjálfara að undanförnu. Aðalástæðan fyrir því að Tyrkir hafa komið íþróttinni af stað er að í janúar 2011 halda þeir heimsleika stúdenta. Sem heimaþjóð þurftu þeir að tefla fram þátttakendum í öllum keppnisgreinum og hafa því fengið styrki og sett fjármagn í uppbyggingu íþróttarinnar í Tyrklandi, eru að klára að byggja krulluhöll og hafa með skipulögðu átaki fengið mikið af ungu fólki (háskólastúdentum) til að hefja iðkun íþróttarinnar. Kvennalið Tyrkja vann alla leiki sína og leikur til úrslita gegn Írlandi um Evrópumeistaratitil C-þjóða.
Karlalið Tyrkja sat yfir í fyrstu umferðinni en tapaði síðan fyrir Serbum. Liðið er skipað ungum og frískum mönnum sem aðallega skortir reynslu og sjálfstraust. Sem betur fer náðum við góðum kafla rétt fyrir miðbik leiksins gegn Tyrkjunum því þeir virtust batna með hverri umferðinni - og raunar hefur það haldið áfram hjá þeim, þjálfari þeirra, Brian Gray, segir þá fara batnandi með hverjum leiknum. Okkur tókst sem sagt að ná góðri forystu gegn Tyrkjunum en þeir spýttu í lófana og voru ekki langt frá því að jafna leikinn, úrslitin þó 8-7 okkur í hag. Tyrkirnir töpuðu naumlega fyrir Hvít-Rússum og unnu Lúxemborg sannfærandi. Von okkar er að Tyrkirnir setji strik í reikning Slóvaka í lokaumferðinni og geri okkur þar með auðveldara fyrir að komast áfram.

Fjórði leikur okkar var gegn Serbum. Þar lentum við 2-0 undir en náðum síðan undirtökunum og unnum nokkuð sannfærandi, 8-5. Serbar eiga enn veika von um að komast áfram ef þeir vinna báða leikina í dag, en þá þurfa þeir að treysta á að Hvít-Rússar, Slóvakar eða við misstígum okkur. Það er semsagt möguleiki á að fjögur lið endi jöfn með fjóra vinninga og þá þarf aukaleiki til að skera úr um hvaða lið fara í úrslitaleikinn og áfram í B-keppnina.

Fimmti leikur okkar byrjaði ekki sem best og endaði ekki sem best. Allt þar á milli var mjög gott. En það eru víst úrslitin sem telja. Fyrst varð okkur á að taka burt stein sem átti að mæla og fengum því skráð 185,4 sentímetra á stein sem var líklega innan við 30 sentímetra frá miðjunni. Það gæti skipt máli þegar upp er staðið ef mörg lið enda jöfn. Til útskýringar fyrir þá sem ekki þekkja til íþróttarinnar þá er það þannig að fyrir hvern leik tekur hvort lið um sig eitt skot og reynir að láta steininn enda sem næst miðju hringsins á hinum enda brautarinnar. Fjarlægðin er mæld og meðaltal úr öllum þessum skotum (að frádregnu því versta) ræður röð liða ef þau eru jöfn að vinningum og jöfn í innbyrðis viðureignum. Reyndar er það þannig einnig að ef lið eru jöfn í sætum sem gefa rétt til að leika úrslitaleikinn þá getur þetta skor ekki útilokað lið, heldur aðeins raðað liðunum og ráðið því hvaða lið þurfa aukaleik um réttinn til að fara í úrslitaleikinn. Slóvakar hafa betra skor en við og reyndar Serbar einnig (skiptir bara máli ef Serbar verða jafnir okkur). Ef svo færi að við, Slóvakar og Hvít-Rússar enduðum jafnir þá er staðan þannig núna að Slóvakar eru líklegastir til að raðast númer eitt og þá þurfum við aukaleik gegn Hvít-Rússum - og þeir eru einmitt eina þjóðin sem hefur sigrað okkur til þessa.

Leikurinn gegn Hvít-Rússum byrjaði semsagt ekki vel. Við hefðum átt að hafa síðasta stein í fyrstu umferðinni miðað við skotið okkar, en það snérist við af því að steinninn var færður. Ekki veit ég hvort það setti okkur úr jafnvægi en að minnsta kosti hittum við ekki vel í fyrstu umferðinni og fengum á okkur fimm stig. Þá kom reyndar í ljós hve góður andi er í liðinu, við létum þetta ekki á okkur fá og skoruðum þrjú stig strax í annarri umferð. Þó svo Hvít-Rússar næðu síðan að svara misstum við aldrei trúna og komumst yfir, 9-8, þegar aðeins ein umferð var eftir. Þá gekk lukkan aftur í lið með Hvít-Rússum og áttum við í erfiðleikum í þeirri umferð. Fyrir okkar síðasta stein áttu Hvít-Rússar tvo steina innst sem gáfu stig. Við áttum völina um að reyna að skjóta annan og jafnvel báða út eða að leggja upp að innri steininum þeirra. Sá sem átti skotið (Jens) vildi frekar skjóta út en sá sem þetta ritar (Halli) vildi og valdi hitt skotið. Eftir á að hyggja var það röng ákvörðun. Með því að skjóta út að minnsta kosti annan stein Hvít-Rússa hefðum við að minnsta kosti sett pressu á þá þó svo þeir hefðu eftir sem áður átt möguleika á að skora tvö stig með sínum síðasta steini. Skotið sem við völdum gekk ekki, líklega var ekki gefin rétt lína fyrir það skot og steinninn náði aldrei inn á hring. Steinarnir tveir frá Hvít-Rússum stóðu því óhaggaðir og þeir þurftu ekki að senda sinn síðasta stein, höfðu þegar trygg tvö stig og sigur í leiknum, 9-10. Grátlegur endir á ótrúlegum og spennandi leik.

Þegar þetta er ritað eru Jens, Svenni og Sævar farnir niður í miðbæ Glasgow til að versla (H&M, Primark og fleiri góðar búðir), en fréttaritari ákvað frekar að bregða sér í krulluhöllina þar sem mótið fer fram og fylgjast með leikjum næstsíðustu umferðarinnar.

Leikirnir sem núna eru í gangi eru: Litháen - Tyrkland, Serbía - Hvíta-Rússland, Slóvakía-Lúxemborg. Okkar draumaúrslit í þessum leikjum væru að Serbar ynnu Hvít-Rússa og Lúxemborg ynnu Slóvaka. Því miður held ég að líkurnar séu á hinn veginn í báðum leikjunum.

Slóvakar sópa af krafti í leiknum gegn Lúxemborg.

Serbar gætu reynst Íslendingum hjálplegir ef lukkan er með - eða skeinuhættir ef öll úrslit fara á versta veg.

Úr leik Litháa og Tyrkja í næstsíðustu umferðinni.

Eitt er þó víst: Við þurfum og ætlum að vinna Litháen í lokaumferðinni í kvöld. Sá leikur hefst kl. 18 að skoskum tíma. Annað getum við ekki gert í bili - sjáum svo hvert það skilar okkur.
Staðan fyrir næstsíðustu umferðina.

Saturday, September 25, 2010

Ísland - Slóvakía 6-5

Æsispennandi, frábær sigur gegn góðu liði. Byrjuðum ekki nógu vel, vorum ekki að ná þeim skotum sem við vorum að reyna. En svo batnaði leikur okkar eftir því sem leið á og í síðari hluta leiksins kom kannski í ljós að við nutum þess að vera í góðu formi.

Fyrirfram töldum við þetta verða einn af tveimur erfiðustu andstæðingunum, þannig að nú höfum við stigið yfir einn erfiðan þröskuld, fleiri eftir.

Nú verum við efstir ásamt Hvít-Rússum, bæði liðin búin að vinna báða sína leiki.

Friday, September 24, 2010

Ísland 12 - Lúxemborg 2

Jáááááááááá!!!!!!!!!

Íslenski fáninn á loft

Þó svo okkar keppni sé ekki hafin fór íslenski fáninn á loft í gær, var dreginn að hún eins og við hefðum unnið gullverðlaun. Vonandi er þetta fyrirboði um það sem koma skal, en í þetta skipti var bara um æfingu að ræða fyrir verðlaunaafhendingu á hinu mótinu á morgun (Evrópumót blandaðra liða) og vildu mótshaldarar ekki nota fána þeirra þjóða sem þar keppa til að æfa fyrir þá athöfn þannig að fyrir valinu urðu sá íslenski og fánar tveggja annarra þjóða sem ekki eiga fulltrúa í "Mixed" mótinu.

Thursday, September 23, 2010

Opnunarhóf


Fámennt en góðmennt opnunarhóf var haldið fyrir C-flokkinn í kvöld. Því miður mættu fæst af liðunum, aðeins Ísland og Tyrkland í karlaflokki og Írland og Tyrkland í kvennaflokki. Íslenska liðið fékk þann heiður að sitja til borðs með írska kvennaliðinu.

Wednesday, September 22, 2010

Krullað og verslað


Þegar hægt er að fara í verslunarmiðstöð, fara í búðir og æfa svo krullu á sama stað þá má eiginlega segja að maður sé kominn í æfingabúðir.

Helmingur krullulandsliðsins (Halli og Sævar) er kominn til Glasgow, búinn að fara og skoða keppnishöllina í Greenacres og fylgjast með leikjum á Evrópumóti blandaðra liða (2 konur, 2 karlar), búinn að fara í verslunarmiðstöðina Braehead þar sem meðal annars er krullusalur með átta brautum og taka þar góða æfingu á góðu svelli. Eftir æfinguna var auðvitað kíkt í búðir.

"Seinni" helmingur liðsins (Jens og Sveinn) kemur til Glasgow um miðjan dag á morgun. Um leið og þeir mæta á hótelið förum við aftur til Braehead og tökum tveggja tíma æfingu þar, fyrst einir og spilum svo stuttan leik við skoskan félaga okkar sem kom á Ice Cup í vor og hefur verið okkur innan handar við ýmislegt hérna í Glasgow.

Að lokinni æfingunni á morgun förum við svo til Greenacres, krulluhöllina þar sem Evrópumótið fer fram, en þar verður opnunarhóf mótsins á fimmtudagskvöld. Til gamans má geta þess að Greenacres krulluhöllin er úti í sveit, í um tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá flugvellinum, og er í byggingu sem áður var fjós og eitthvað fleira, samtals 6 krullubrautir.

Ýmislegt um krullu og meðal annars myndir frá Evrópumótunum má finna á skoska krullblogginu "Skip Cottage Curling".