Wednesday, September 22, 2010

Krullað og verslað


Þegar hægt er að fara í verslunarmiðstöð, fara í búðir og æfa svo krullu á sama stað þá má eiginlega segja að maður sé kominn í æfingabúðir.

Helmingur krullulandsliðsins (Halli og Sævar) er kominn til Glasgow, búinn að fara og skoða keppnishöllina í Greenacres og fylgjast með leikjum á Evrópumóti blandaðra liða (2 konur, 2 karlar), búinn að fara í verslunarmiðstöðina Braehead þar sem meðal annars er krullusalur með átta brautum og taka þar góða æfingu á góðu svelli. Eftir æfinguna var auðvitað kíkt í búðir.

"Seinni" helmingur liðsins (Jens og Sveinn) kemur til Glasgow um miðjan dag á morgun. Um leið og þeir mæta á hótelið förum við aftur til Braehead og tökum tveggja tíma æfingu þar, fyrst einir og spilum svo stuttan leik við skoskan félaga okkar sem kom á Ice Cup í vor og hefur verið okkur innan handar við ýmislegt hérna í Glasgow.

Að lokinni æfingunni á morgun förum við svo til Greenacres, krulluhöllina þar sem Evrópumótið fer fram, en þar verður opnunarhóf mótsins á fimmtudagskvöld. Til gamans má geta þess að Greenacres krulluhöllin er úti í sveit, í um tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá flugvellinum, og er í byggingu sem áður var fjós og eitthvað fleira, samtals 6 krullubrautir.

Ýmislegt um krullu og meðal annars myndir frá Evrópumótunum má finna á skoska krullblogginu "Skip Cottage Curling".

No comments:

Post a Comment