Monday, June 21, 2010

C-keppnin: Sjö þjóðir skráðar til leiks

Í morgun barst staðfesting frá ECF á skráningu liða í Evrópumótið í krullu. Sjö þjóðir senda lið til keppni í C-flokki, Hvíta-Rússland, Ísland, Litháen, Luxembourg, Serbía, Slóvakía og Tyrkland. Liðin sjö leika innbyrðis, allir við alla. Hugsanlega þarf svo aukaleiki til að skera úr um hvaða lið ná tveimur efstu sætunum og þar með keppnisrétti í B-flokki. Tvö efstu liðin leika jafnframt úrslitaleik um Evrópumeistaratitil í C-flokki. Áætlað er að keppni í C-flokki fari fram 24.-28. september.

Frumraun Tyrkja
Fimm af þessum þjóðum tóku þátt í B-keppninni í Aberdeen í fyrra en féllu niður í C-flokk (Hvíta-Rússland, Ísland, Litháen, Serbía, Slóvakía). Tyrkland er nýr aðili að ECF og verður þetta því frumraun þeirra á Evrópumótinu. Luxembourg sendir nú aftur lið til leiks á Evrópumóti eftir nokkurt hlé.

Grikkir beint í B-flokk

Grikkir hefðu átt að vera á meðal keppenda í C-flokki en þeir fara beint upp í B-keppnina þar sem Pólverjar, sem áttu sæti í B-keppninni, skráðu ekki lið til leiks af einhverjum ástæðum. Grikkir unnu einum leik meira en Ísland í B-keppninni í fyrra, enduðu þannig efstir af þeim þjóðum sem féllu í C-flokk og taka því sæti Póllands í B-flokki.

Íslenska liðið sigraði Slóvaka í B-flokki Evrópumótsins í fyrra en Ísland hefur ekki mætt öðrum af þessum þjóðum á EM.

No comments:

Post a Comment